Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 140. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 746  —  140. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um eftirlit með fóðri, áburði
og sáðvöru, nr. 22/1994, með síðari breytingum (áburðareftirlit,
fóðureftirlit, þvingunarúrræði og viðurlög).


Frá atvinnuveganefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ásu Þórhildi Þórðardóttur, Baldur P. Erlingsson og Halldór Runólfsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Ernu Bjarnadóttur frá Bændasamtökum Íslands, Eyjólf Sigurðsson og Guðmund Siemsen fyrir hönd Fóðurblöndunnar, Ríkharð Brynjólfsson sem starfar við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri, Pétur Reimarsson frá Samtökum atvinnulífsins, Ragnheiði Héðinsdóttur frá Samtökum iðnaðarins og Ingunni Agnesi Kro og Lúðvík Björgvinsson frá Skeljungi hf. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Bændasamtökum Íslands, Fóðurblöndunni ehf., Samtökum atvinnulífsins og Skeljungi hf.
    Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru. Annars vegar er um að ræða ákvæði sem snerta heimildir Matvælastofnunar til eftirlits. Nauðsynlegt þykir að leggja slíkar breytingar til þar sem áburðarfyrirtæki hafa gert athugasemdir við tilteknar heimildir stofnunarinnar. Hins vegar eru í frumvarpinu lagðar til ýmsar aðrar breytingar til að auka skýrleika auk þess sem lögð eru til ný ákvæði sem sýnt þykir að þörf sé á. Á 140. og 141. löggjafarþingi voru lögð fram sams konar frumvörp en þau náðu ekki fram að ganga.
    Gildandi lög byggjast upp á nokkrum köflum. Í I. og II. kafla er mælt fyrir um gildissvið, yfirstjórn, starfsleyfi, eftirlit o.fl. Í III. kafla eru ákvæði um fóður. Í frumvarpinu er lagt til að við bætist nýr kafli, er verði IV. kafli um áburð. Í IV. og V. kafla laganna eru ákvæði um eftirlitsgjald og viðurlagaákvæði.
    Helstu breytingar sem felast í frumvarpinu eru eftirfarandi:
    Lagt er til í 2. gr. að Matvælastofnun verði heimilt að framselja til heilbrigðisnefnda sveitarfélaga ákveðin verkefni vegna eftirlits og gildir gjaldskrá Matvælastofnunar þegar slík heimild kann að vera nýtt. Við umfjöllun um málið voru gerðar athugasemdir við að heilbrigðisnefndum yrði framselt vald, einkum vegna þess að því fylgir vald til að beita þvingunarráðstöfunum. Nefndin telur hagræði geta verið fólgið í því fyrir þá sem sinna eftirliti að geta framselt vald til að sinna tilteknu, afmörkuðu eftirliti og leggur því ekki til breytingu á þessu ákvæði.
    Í 3. gr. er kveðið á um skyldu fóðurfyrirtækja til að hafa starfsleyfi frá Matvælastofnun. Einnig mun þurfa leyfi frá Lyfjastofnun ef framleitt verður lyfjablandað fóður.
    Þá eru lagðar til ýmsar breytingar á lögunum sem eiga við um fóður, áburð eða sáðvöru.     Í 4. gr. er áréttuð ábyrgð fyrirtækja á því að efnainnihald eða eiginleikar vöru séu í samræmi við skráða vörulýsingu.
    Í 6. gr. frumvarpsins er þess krafist að tekin séu umhverfissýni vegna eftirlits með tilkynningarskyldum sjúkdómum en gildandi ákvæði mælir aðeins fyrir um tilkynningarskyldu vegna örvera í sjálfu fóðrinu. Bent var á að óljóst þætti hvað fælist í hugtakinu „umhverfissýni“ og að þeim sem sæta eftirliti á grundvelli laganna bæri ekki skylda til að taka sýni úr umhverfi. Með umhverfissýni er átt við sýni úr umhverfi vinnslunnar, þ.e. húsnæði sem fóður er geymt eða unnið í, búnaður sem er notaður til framleiðslu, geymslu, flutnings o.s.frv. Einnig er átt við ytra umhverfi, svo sem aðkomuleiðir að verksmiðju og bílastæðum, sem er ekki í beinni snertingu við fóður en getur mengast og valdið hættu á víxlmengun fóðursins. Einnig heyrir þarna undir svokölluð vinnslurás sem er leið fóðurs frá hráefnum í fullbúið fóður, þ.m.t. losunarbúnaður í bílatanka eða sekkjunarbúnað sem er því í beinni snertingu við fóður. Með ákvæði 6. gr. er ætlunin að fá upplýsingar frá þeim sem sæta eftirliti um þau jákvæðu sýni sem þau greina ef þessir aðilar sjá ástæðu til að taka sýni úr umhverfi, þ.m.t. bílastæðum. Ef t.d. salmonella greinist er eðlilegt að slíkt sé tilkynnt og er talið mikilvægt að upplýsingar um þetta liggi fyrir svo að unnt sé að rannsaka smit og smitleiðir til alifuglaframleiðenda sem geta verið berskjaldaðir fyrir smituðu fóðri. Nefndin bendir á að fullur trúnaður ríkir um niðurstöður sýnatöku og áréttar að ekki hvílir skylda á þeim sem sæta eftirliti til að taka sýni af þessu tagi.
    Lagt er til að við lögin bætist nýr kafli um áburð. Mælt er fyrir um skyldu framleiðenda eða dreifingaraðila áburðar til að leggja fram vottorð vegna kadmíums í áburði, að breytingar á efnainnihaldi áburðar séu tilkynntar Matvælastofnun og að markaðssetning sé stöðvuð ef áburður er ekki talinn öruggur til notkunar. Þá er kveðið á um ábyrgð stjórnanda áburðarfyrirtækis á því að kröfur laga og stjórnvaldsreglna séu á hverjum tíma uppfylltar og að hann beri sönnunarbyrði fyrir því að umræddar kröfur séu uppfylltar.
    Í 7. gr. frumvarpsins er m.a. kveðið á um að áburðarfyrirtæki skuli leggja fram vottorð um kadmíuminnihald hverrar áburðartegundar fyrir innflutning eða markaðssetningu, að tilkynnt skuli um breytingu á hráefnum, efnainnihaldi eða eiginleikum áburðar og að stjórnandi áburðarfyrirtækis skuli tilkynna Matvælastofnun telji hann eða hafi ástæðu til að telja að áburður sé ekki í samræmi við kröfur um efnainnihald eða eiginleika og gera ráðstafanir til úrbóta. Við meðferð málsins í nefndinni bar nokkuð á athugasemdum um verklag við til að mynda sýnatöku úr áburði og um móttöku á vottorðum um vöru erlendis frá. Nefndin leggur til að við e-lið 7. gr. bætist ný málsgrein þar sem kveðið verði á um heimild ráðherra til að setja reglugerð þar sem mælt verði nánar fyrir um framkvæmd eftirlits, þ.m.t. um sýnatöku eftirlitsaðila hér á landi og um þau vottorð sem fylgja vöru erlendis frá.
    Lögð eru til breytt ákvæði um stjórnsýslusektir og refsiviðurlög vegna brota á lögunum en ákvæði gildandi laga eru ekki talin samræmast nútíma sakamálaréttarfari. Sú háttsemi sem getur leitt til viðurlaga er tilgreind með því að vísa í viðeigandi ákvæði laganna. Gert er ráð fyrir því að brot gegn lögunum sæti aðeins rannsókn sem sakamál ef Matvælastofnun kærir brot til lögreglu. Ef brot varðar bæði stjórnsýslusektum og refsiviðurlögum er gert ráð fyrir því að Matvælastofnun meti hvort mál skuli kært til lögreglu og ef brot telst meiri háttar ber stofnuninni að vísa því til lögreglu. Meiri háttar brot eru þau sem eru framin með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka mjög á saknæmi. Þá fær Matvælastofnun heimild til að ljúka málum með sátt með samþykki málsaðila en um það er ekki að ræða þegar brot telst meiri háttar. Uppbygging viðurlagaákvæðis frumvarpsins á sér hliðstæðu í ýmsum lögum á fjármálamarkaði, svo sem samkeppnislögum, lögum um fjármálafyrirtæki og lögum um vátryggingastarfsemi. Breytingar voru gerðar á lögum á fjármálamarkaði í kjölfar skýrslu nefndar um viðurlög við efnahagsbrotum frá október 2006. Umfjöllun hennar miðaði meðal annars að því að leggja fram tillögur um hlutverk og verkaskiptingu eftirlitsaðila einkum hvað varðar skil á milli þeirra sem geta beitt stjórnvaldssektum og lögreglu og ákæruvalds. Í gildandi lögum eru ekki tilgreindar þær lagagreinar sem brot gegn geti varðað viðurlögum heldur er ákvæðið opið þar sem segir að brot gegn lögunum geti varðað sektum og einnig að sé um stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot að ræða skuli brot að auki varða fangelsi allt að tveimur árum. Ekki er í frumvarpinu aukið við refsihámark gildandi laga.
    Í 9. gr. er lagt til að heimilt sé að gefa fyrirmæli um afmengun fóðurs, áburðar og sáðvöru. Fram kom við umfjöllun um frumvarpið í nefndinni að ekki væri unnt að afmenga áburð og leggur því nefndin til að áburður falli brott úr framangreindri upptalningu.
    Einnig leggur nefndin til breytingar á orðalagi c-liðar 11. gr. í því skyni að samræma orðalag betur að þeim ákvæðum sem þar vísað er til.
    Nokkuð var rætt um kadmíum í áburði við umfjöllun um málið. Fyrir liggja greinargerðir um málið sem hafa verið unnar fyrir stjórnvöld og eins fyrir innflytjanda á áburði. Fjallað var um innihald kadmíum í áburði og afleiðingar þess að hingað til lands hefur borist áburður með hærra kadmíuminnihald en íslenskar reglur kveða á um. Íslenskar reglur um kadmíuminnihald kveða á um 50 mg kadmíum (Cd) pr. kg fosfórs í áburði. Fram kom við umfjöllun um málið í nefndinni að tvenns konar fosfór finnist í heiminum, annars vegar fosfór með lágu kadmíuminnihaldi og hins vegar kadmíumríkur fosfór. Í Finnlandi gilda strangar reglur um kadmíuminnihald enda eru þar í landi fosfórnámur með afar lágt innihald af kadmíum. Slíkar námur eru þverrandi auðlind en fosfór er aðgengilegur á svæðum sem hafa mun hærra kadmíumgildi. Kadmíum er afar lágt í dýrum á Íslandi, það finnst í lifur og í nýrum en ekki mjólk eða kjöti. Það finnst helst í lifur eldri hrossa en varla í kjöti af ungum dýrum. Fram kom að áhrifin af þeim uppákomum, þar sem áburði með hærra innihaldi af kadmíum hefði verið dreift, hefðu varla verið mælanleg. Eflaust mættu gildin vera mun hærri hér á landi, jafnvel allt að 160 mg kadmíum pr. kg af fosfór. Nefndin mælist til þess við ráðherra að þau viðmið sem hér gilda um magn kadmíums í áburði verði tekin til umræðu og endurskoðunar. Ljóst er að það þarf ítarlegan undirbúning ef breyta á íslenskum reglum um innihald kadmíums en einnig er ljóst að eftir því sem gildin eru lægri hér á landi eykst kostnaður áburðarnotenda verulega.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



     1.      Við e-lið 7. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Ráðherra er heimilt að mæla nánar fyrir um framkvæmd eftirlits og um vottorð í reglugerð.
     2.      Í stað orðanna „fóðurs, áburðar eða sáðvöru“ í 9. gr. komi: fóðurs eða sáðvöru.
     3.      Við 1. mgr. c-liðar 11. gr.
              a.      G-liður orðist svo: skyldu til að geta rakið feril dýrafóðurs skv. 7. gr. f.
              b.      Orðin „eða markaðssetningu áburðar sem inniheldur meira kadmíuminnihald en leyfilegt er“ í j-lið falli brott.

    Ásmundur Friðriksson og Björt Ólafsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 5. mars 2014.



Jón Gunnarsson,


form.


Haraldur Benediktsson,
frsm.

Lilja Rafney Magnúsdóttir.



Kristján L. Möller.


Páll Jóhann Pálsson.


Þorsteinn Sæmundsson.



Þórunn Egilsdóttir.